Samþykktir

 
Samþykktir fyrir Hollvinasamtök Borðeyrar.
 
 
1. grein.
Félagið heitir Hollvinasamtök Borðeyrar. Heimili þess og varnarþing er á Borðeyri við Hrútafjörð.
 
2. grein.
Markmið samtakanna er að hlúa að og efla Borðeyri með uppbyggingu og sögu staðarins að leiðarljósi.
3. grein.
Félagsaðild er öllum frjáls, einstaklingum, fyrirtækjum og félagasamtökum. Aðilar að félaginu teljast þeir er greiða árgjald samtakanna.
 
4. grein.
 Stjórn samtakanna skal skipuð 5 mönnum kosnum úr hópi félagsmanna á aðalfundi til tveggja ára í senn, en þó skal kosið um 2 stjórnarmenn á sléttri ártölu og 3 stjórnarmenn á oddatölu. Einnig skal kjósa 2 varamenn í stjórn og einn skoðunarmann reikninga til tveggja ára. Þess skal gætt að í það minnsta einn stjórnarmaður sé íbúi á Borðeyri.
Stjórn skiptir með sér verkum, formaður, varaformaður , ritari, gjaldkeri.
Formaður boðar til stjórnarfunda þegar þurfa þykir, eða þegar einn stjórnarmaður óskar þess. Stjórnarfundir eru ályktunarfærir ef meirihluti stjórnar mætir. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála á stjórnarfundum.
Í verkahring stjórnar er m.a. að:
a) Halda aðalfund.
b) Varðveita félagaskrá samtakanna.
c) Innheimta og ráðstafa árgjöldum, fjárframlögum og öðrum tekjum sem samtökin afla með ályktanir/tillögur aðalfundar og markmið samtakanna að leiðarljósi.
d) Gera félagsmönnum kleift að fylgjast með og eiga hlutdeild í starfsemi samtakanna.
 
5. grein.
Aðalfundur félagsins skal haldinn fyrir 1. júlí ár hvert. Til hans skal boðað með tryggilegum hætti með amk. 7 daga fyrirvara.
Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum á aðalfundi nema annað sé sérstaklega tekið fram í samþykktum þessum.
 
6. grein.
Dagskrá aðalfundar skal vera:
1. Skýrsla stjórnar.
2. Áritaðir reikningar félagsins frá fyrra ári (sem telst almanaksárið).
3. Lagabreytingar (ef þeirra var getið í fundarboði).
4. Kosning til stjórnar og varastjórnar.
5. Kosning skoðunarmanns.
6. Árgjald samtakanna ákveðið.
7. Önnur mál.
  
7. grein.
 Félagsfundi skal boða svo oft sem þurfa þykir og er stjórninni skylt að efna til þeirra ef fjórðungur félagsmanna fer fram á það og tilgreinir fundarefni.
Félagsfundi skal boða með tryggilegum hætti með minnst 3 sólahringa fyrirvara hið skemmsta. Fundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað.
 
8. grein.
Fundum skal stjórnað eftir almennum fundarsköpum. Ef ágreiningur verður um fundarsköp úrskurðar fundarstjóri, en skotið getur hann ágreiningsefni undir atkvæði fundarmanna. Afl atkvæða ræður úrslitum mála á félagsfundum, nema þar sem öðruvísi kann að vera ákveðið í samþykktum þessum.
 
9. grein.
 Samþykktum þessum má aðeins breyta á aðalfundi, enda hafi tillögur þar að lútandi borist til stjórnar áður en aðalfundur er auglýstur og þeirra getið í fundarboði. Á aðalfundi er heimilt að gera breytingartillögur við löglega framkomnar tillögur til breytinga á samþykktum samtakanna, enda feli breytingatillögur ekki í sér óskyld efni við upprunalegu tillögurnar.
Til að breyting á samþykktum samtakanna nái fram að ganga þarf hún að verð studd 2/3 hluta greiddra atkvæða. Um leið og samþykkt er breyting á samþykktum samtakanna skal ákveða hvenær breytingin tekur gildi.
  
10. grein.
Ef áform verða um að slíta samtökunum,skal það borið undir almennan félagsfund. Skal hann boðaður á sama hátt og aðalfundur og er í fundarboði greinilega skýrt frá áformum um slit samtakanna. Ákvörðun um slit þarf að hljóta samþykkis minnst 2/3 fundarmanna. Verði slit samtakanna samþykkt skulu eignir þess, ef einhverjar eru, ganga óskiptar til endurbyggingu eða reksturs Riis-húss á Borðeyri.
  
11. grein.
Samþykktir þessar öðlast gildi þegar þær eru samþykktar á stofnfundi og undirritaðar af stjórn samtakanna.
 
 
 
Samþykkt á stofnfundi samtakanna höldnum á Borðeyri þann 11. júní 2009.